Formáli forstjóra

forstjóri-ávarp

Rekstur ÁTVR gekk ágætlega á árinu og var samkvæmt áætlun. Salan á áfengi jókst lítillega. Sala á sígarettum heldur áfram að dragast saman en sala á neftóbaki eykst.  

Áfengisneysla er lítil á Íslandi vegna þess að stjórnvöld reka mjög aðhaldssama áfengisstefnu sem felst í ríkisrekinni áfengiseinkasölu, háum áfengissköttum, auglýsingabanni, meðferðarúrræðum og öflugu forvarnarstarfi. Ríkisrekna áfengiseinkasalan, ÁTVR, er í hópi elstu fyrirtækja landsins enda komið á fót árið 1922 þegar sölubanni á áfengi var aflétt á Íslandi. Þegar bannárunum lauk var það mikið alvörumál að selja áfengi. Afgreiðslan var yfir borð og oft var þröng á þingi, sérstaklega fyrir helgar. Biðraðamenning þekktist ekki og afgreiðsluborðin þurftu að vera sterkbyggð til þess að þola þrýstinginn sem gat myndast. Hugtakið þjónusta var ekki til og starfsfólkið var í einkennisklæðum sem líktust þeim sem lögreglan og tollverðir notuðu. Afgreiðslan var með valdmannslegum brag og viðskiptavinir fengu ekki að komast í tæri við vöruna fyrr en kaupum var lokið. Enn finnast raddir í þjóðfélaginu sem minnast þessa tíma með hlýleika. Biðröðin í ríkinu var upphafið að helgarskemmtuninni og fyrir marga ómissandi hluti af góðu djammi. Almenningur var ekki mikið að velta fyrir sér hvort þetta væri gott eða slæmt kerfi enda ekki spurður álits. Kerfið var einfaldlega svona og ekki annað í boði. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og margt breyst í rekstrinum.            

Íslendingar eru ánægðir með ÁTVR

Þrátt fyrir háan aldur virðist ÁTVR hafa tekist ágætlega að þróa sig áfram í sátt við samfélagið. Skoðanakannanir sýna að yfir 70% þjóðarinnar vill ekki fá áfengi í matvöruverslanir. Nýlega voru birtar niðurstöður í Íslensku ánægjuvoginni. Svo ótrúlega sem það hljómar var ÁTVR með ánægðustu viðskiptavini landsins þriðja árið í röð. Því er óhætt að segja að viðskiptavinir verslunarinnar séu sáttir við fyrirkomulagið sem nú ríkir í smásölu áfengis. Almenningur á Íslandi og viðskiptavinir ÁTVR eru ekki að þrýsta á einkavæðingu.

Skoðanakannanir sýna að yfir 70% þjóðarinnar vill ekki fá áfengi í matvöruverslanir.

ÁTVR hefur alltaf verið rekin með hagnaði

Allt frá því að stofnuninni var komið á fót hefur verslunin verið rekin með hagnaði. Yfirleitt hefur hagnaðinum verið ráðstafað beint í ríkissjóð. Á síðustu sex árum hefur ÁTVR hagnast um 7,7 milljarða og greitt til ríkissjóðs um 7,1 milljarð. Nánast allur rekstrarhagnaður ÁTVR er því greiddur beint í ríkissjóð. ÁTVR er lögum samkvæmt rekin sem ein heild, þ.e.a.s. starfsemin er lýtur að smásölu áfengis annars vegar og heildsölu tóbaks hins vegar er ekki sérstaklega aðgreind í rekstri fyrirtækisins eða bókhaldi. Smásöluálagning á áfengi og heildsöluálagning á tóbak er ákveðin af Alþingi ekki ÁTVR. Heildsala tóbaks skilar ÁTVR hlutfallslega meiri hagnaði en smásala áfengis. Munurinn ræðst fyrst og fremst af ákvörðun Alþingis um álagningu. Þrátt fyrir þennan mun gera áætlanir ÁTVR fyrir árið 2016 ráð fyrir að tekjur af áfengissölu muni greiða fyrir allan launa- og rekstrarkostnað ÁTVR á árinu og gott betur.

Á síðustu sex árum hefur ÁTVR hagnast um 7,7 milljarða og greitt til ríkissjóðs um 7,1 milljarð.

Einkavæðing þýðir aukin sala

Röksemdir þeirra sem eru fylgjandi einkavæðingu eru gjarnan þær að fyrst að einkaaðilar geti séð um áfengissölu annars staðar hljóti það að ganga á Íslandi. Einkaaðilar geta að sjálfsögðu selt áfengi en fórnarkostnaðurinn verður hár. Málið er einmitt að einkaaðilar eru ótrúlega góðir að selja. Þeir vilja alltaf selja meira og meira, auka markaðshlutdeildina og auðvitað skila hagnaði í vasa eigendanna. Það er kjarni frjáls markaðar og samkeppnisrekstrar. Þar eru einkaaðilar bestir. Þess vegna eru þeir ekki heppilegir þegar markmiðið er ekki að auka söluna eða hagnast á henni heldur að þjónusta almenning við að kaupa og neyta vöru sem getur verið mjög skaðleg heilsu manna. Þá er best að hafa hlutlausan aðila sem hefur engan persónulegan ávinning af sölunni. Ekki þarf að leita lengra en til Danmerkur til þess að átta sig á þessu. Þar sjá einkaaðilar um áfengissöluna og hirða ágóðann. Neysla áfengis á mann í Danmörku er miklu meiri en á Íslandi og kostnaður danska samfélagsins af misnotkun áfengis gríðarlegur. Skattborgurum er sendur reikningurinn.

Hlutleysi ÁTVR og auglýsingabann á áfengi

Hlutleysis er gætt gagnvart áfengisbirgjum sem eiga allir jafna möguleika á að koma vörum sínum í hillur Vínbúðanna. Enginn er þar tekinn fram yfir annan hvorki stór né smár. Þetta skiptir framleiðendur og birgja miklu máli því bannað er að auglýsa áfengi á Íslandi. Ef áfengissala yrði gefin frjáls er líklegt að aflétta þurfi auglýsingabanni. Á þetta hafa áfengisframleiðendur og áfengisheildsalar bent. Annars sætu þeir ekki við sama borð í matvöruverslunum landsins þar sem einn aðili ræður markaðinum. 

Ef áfengissala yrði gefin frjáls er líklegt að aflétta þurfi auglýsingabanni.

Hverjir hagnast og hverjir tapa

Stærsta matvörukeðja landsins vill gjarnan að áfengiseinkasala ríkisins verði lögð niður. Nú þegar er keðjan með ríflega 50% af matvörumarkaðinum á sinni hendi. Með helming af áfengissölunni myndi veltan hjá matvörurisanum aukast um rúmlega 12 þúsund milljónir á ári. Nú þegar ber hann ægishjálm yfir allri matvöruverslun í landinu. Með áfengissölunni væri matvörurisinn kominn í algera yfirburðastöðu. Varla er það til hagsbóta fyrir neytendur.

Það er verðugra verkefni fyrir þá sem tala fyrir frjálsri samkeppni að brjóta niður núverandi fákeppni í matvöruverslun heldur en að styrkja hana í sessi. Það er með öllu óskiljanlegt að talsmenn frjálsrar samkeppni láti það líðast að eitt fyrirtæki fái að ráða yfir helmingi allrar matvöru sem seld er í landinu og sé þannig algerlega markaðsráðandi. 

Þeir sem tapa mestu verði frumvarpið að veruleika eru samkvæmt rannsóknum börn og unglingar. Skattborgarar fara einnig illa út úr breytingunni því þeir þurfa að borga brúsann meðan einkaaðilar hirða ágóðann.

Kjarni málsins

Einkasala ríkisins á smásölu áfengis felur eðli málsins samkvæmt í sér hömlur sem mikilvægt er að almenningur hafi skilning á. Fjöldi áfengisverslana og opnunartími er takmarkaður og verslunin stundar enga söluhvetjandi starfsemi enda ekki rekin í gróðaskyni. Viðskiptavinum bjóðast engin tilboð á áfengi, afsláttur eða annað af því tagi sem er algengt í almennum rekstri þar sem markmiðið er að selja sem mest. Ríkiseinkasalan afnemur samkeppni og því er selt minna áfengi en þegar almennar verslanir keppa um söluna. Það er kjarni málsins um hvort starfrækja eigi ríkisrekna áfengiseinkasölu eða ekki. Staðreyndirnar eru skýrar. Ef áfengissala er gefin frjáls eykst álag á heilbrigðiskerfi og löggæslu verulega með tilheyrandi kostnaði fyrir skattborgara eins og tölur frá Danmörku sýna. 

Ef áfengissala er gefin frjáls eykst álag á heilbrigðiskerfi og löggæslu verulega með tilheyrandi kostnaði fyrir skattborgara eins og tölur frá Danmörku sýna.

Það kemur fleira gott frá Svíþjóð en sænski landsliðsþjálfarinn í knattspyrnu. Árið 1993 gaf sænska ríkisstjórnin út bækling um sænska áfengisstefnu. Bæklingurinn var gefinn út í tilefni umsóknar Svíþjóðar um aðild að Evrópusambandinu og lýsir hann ágætlega hlutverki ríkisrekinnar áfengissölu. Bæklingurinn er ennþá í fullu gildi og aðgengilegur á heimasíðu ÁTVR. Í stuttu máli er megin tilgangurinn með sænsku einkasölunni að fjarlægja einkahagsmuni frá áfengissölu. Samkeppni og hagnaðarkrafa einkaaðila ýtir undir að meira er selt og það vildu Svíar ekki vegna þess að bein tenging er á milli selds magns og skaðans sem áfengisneyslan veldur í samfélaginu. Með ríkisrekstri er dregið úr sölunni og þar með batnar heilsufar þjóðarinnar, ofbeldisglæpum tengdum áfengisneyslu fækkar og jafnframt dregur úr ölvunarakstri. Samfara minni áfengisneyslu lækkar kostnaður skattborgaranna vegna misnotkunar áfengis. Fjöldi rannsókna styðja við sænska kerfið og má finna tengla í þær á heimasíðu Landlæknis. Þetta viðurkenndi Evrópusambandið þegar Svíar kröfðust þess að fá að halda áfengiseinkasölunni við inngöngu. Niðurstaðan var sú að Evrópusambandið innleiddi í regluverkið að aðildarþjóðum væri heimilt að reka ríkisreknar áfengiseinkasölur ef þær svo kysu. Ríkiseinkasalan í Svíþjóð heitir Systembolaget og lifir hún ennþá góðu lífi og sátt ríkir um reksturinn í sænsku samfélagi.

Sjálfbærni

ÁTVR styður við „Global Compact“ sáttmála Sameinuðu þjóðanna og vinnur með systurfyrirtækjum sínum á Norðurlöndum við að innleiða sjálfbærni og samfélagsábyrgð í starfsemi og stefnumótun fyrirtækjanna. Markmiðið er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum og þannig gera reksturinn sjálfbærari. Starfsfólk ÁTVR hefur fengið margs konar viðurkenningar á árinu t.d. samgönguverðlaun Reykjavíkurborgar og Kuðunginn, viðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf í umhverfismálum. Einnig vinnur ÁTVR með Festu og Reykjavíkurborg að sérstöku loftslagsverkefni ásamt öðrum fyrirtækjum.

Markmiðið er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum og þannig gera reksturinn sjálfbærari.

Áskoranir í rekstri

Frumvarp um að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum er enn til umfjöllunar á Alþingi og þegar þessi orð eru rituð er óljóst um afdrif frumvarpsins. Málið hefur verið rætt ítarlega í fjölmiðlum og sitt sýnist hverjum. Minna er rætt um að starfsfólk ÁTVR býr við óvissu meðan málið er óafgreitt. Það veldur vanlíðan og kvíða hjá starfsfólki og skapar óöryggi um framtíðina. Mikilvægt er að fá niðurstöðu í málið sem fyrst þannig að hægt sé að horfa fram á veginn og eyða óvissunni sem nú ríkir. 

Þakkir til starfsfólks

Ég vil að lokum þakka starfsfólki fyrir samstarfið á árinu. Þriðja árið í röð er ÁTVR með ánægðustu viðskiptavinina á Íslandi. Það er ekki hægt nema með frábæru starfsfólki. 

Ívar J. Arndal


Heildarstefna

Leiðarljós

Að framfylgja stefnu stjórnvalda um bætta lýðheilsu og samfélagslega ábyrgð í áfengis- og tóbaksmálum í sátt við samfélagið

Áherslur

Ábyrgir starfshættir

 • Við viljum að sátt ríki í samfélaginu um núverandi fyrirkomulag á smásölu áfengis
 • Við förum vel með verðmæti og notum auðlindir af ábyrgð
 • Við leitum stöðugt nýrra leiða til þess að bæta reksturinn
 • Við gætum jafnræðis við val og dreifingu á vöru
 • Við viljum draga úr áfengisneyslu ungs fólks með því að tryggja að aldursmörk til áfengiskaupa séu virt

Ánægt starfsfólk

 • Við viljum að vinnustaðurinn sé öruggur, heilsueflandi og skemmtilegur þar sem samskipti einkennast af lipurð, þekkingu og ábyrgð
 • Við viljum að starfsfólk njóti virðingar og gerum því kleift að sinna starfi sínu á sem bestan hátt
 • Við leggjum áherslu á að starfsfólk fái tækifæri til að auka þekkingu sína og hæfni
 • Við líðum ekki mismunun á vinnustaðnum og tryggjum að starfsfólk njóti sömu kjara fyrir sambærileg störf


Ánægðir viðskiptavinir

 • Við setjum viðskiptavininn í öndvegi og tökum mið af væntingum hans
 • Við veitum þjónustu sem byggir á lipurð, fagmennsku og hlutleysi
 • Við leggjum áherslu á fræðslu til viðskiptavina án þess að hvetja til meiri neyslu

Ábyrgt vöruval

 • Við leitumst við að bjóða eingöngu vörur sem framleiddar eru samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum
 • Við viljum að vöruvalið sé áhugavert og byggi á fjölbreytileika og gæðum
 • Við viljum tryggja öryggi og gæði vara
 • Við viljum vernda ungt fólk með því að hindra framboð á óæskilegum vörum

Virðing fyrir umhverfinu

 • Við berum virðingu fyrir umhverfinu og leitum leiða til að lágmarka umhverfisáhrif af starfseminni
 • Við drögum úr úrgangi með markvissum hætti og bjóðum viðskiptavinum upp á vistvænar lausnir

Stefna

Að vera eitt af fremstu þjónustufyrirtækjum landsins og fyrirmynd á sviði samfélagsábyrgðar


Framkvæmdaráð

ivar-360x400@2x.jpg

Ívar J. Arndal

Forstjóri

sigrun 360x400@2x.jpg

Sigrún Ósk Sigurðardóttir

Aðstoðarforstjóri

sveinn-360x400@2x.jpg

Sveinn Víkingur Árnason

Framkvæmdastjóri


Skipulag og stjórnun

Skipuritið sýnir starfsemi fyrirtækisins á myndrænan hátt. Meginsviðin eru tvö, vörudreifing og heildsala tóbaks og sölu- og þjónustusvið. Stoðsviðin eru fjögur: fjárhagssvið, mannauðssvið, rekstrarsvið og vörusvið.

skipurit_nytt2

Forstjóri og framkvæmdastjórar funda að jafnaði vikulega. Mánaðarlega fundar yfirstjórn með mannauðsstjóra, aðalbókara og aðstoðarframkvæmdastjóra sölu- og þjónustusviðs til að fara yfir stöðu verkefna. Til að veita starfsfólki sem bestar upplýsingar um rekstur og stöðu verkefna eru haldnir reglulegir fundir með stjórnendum og starfsfólki í höfuðstöðvum og dreifingarmiðstöð. Verslunarstjórar stærri Vínbúða halda auk þess fundi með sínu starfsfólki. 

Þverfaglegir verkefna- og umbótahópar eru hluti af skipulaginu. Hóparnir vinna fyrirfram skilgreind verkefni og hafa ákveðinn skipunartíma. Á árinu störfuðu tíu verkefnahópar og einn umbótahópur með þátttöku 25 starfsmanna frá mismunandi starfsstöðvum.  


Ársskýrsla í samræmi við GRI

Þessi ársskýrsla gildir fyrir almanaksárið 2015 og nær yfir alla starfsemi ÁTVR sem er eingöngu á Íslandi.

bola3.png
bola2.png
bola1.png

Ársskýrslan er eingöngu á rafrænu formi, en hægt er að prenta út einstaka hluta hennar eða skýrsluna í heild.

Við gerð skýrslunnar er fylgt Global Reporting Initiative (GRI), G4, þar sem markmiðið er að skrá og miðla með gagnsæjum hætti upplýsingum sem tengjast samfélagslegri ábyrgð. Gerð er grein fyrir 37 mælikvörðum að fullu og einum að hálfu í sex flokkum. Hægt er að nálgast heildaryfirlit og mælikvarða á einum stað en jafnframt er gerð grein fyrir mælikvörðum í textum þar sem þeir eiga við.

ÁTVR er aðili að UN Global Compact og er ársskýrslunni skilað sem árlegri framvinduskýrslu (e. Communication on Progress) til samtakanna.


Hagsmunaaðilar

Stefna ÁTVR er að vera í hópi fremstu þjónustufyrirtækja
landsins og þekkt fyrir samfélagslega ábyrgð.

Við mat á samfélagslegri ábyrgð er mikilvægt að skilgreina hlutverk hagsmunaaðila en þeir skiptast í fimm flokka. Viðskiptavinir, mannauður, samfélagið, eigandinn og birgjar.

Fjallað er um áherslur gagnvart hverjum og einum hagsmunaaðila en allar miða þær að því að fylgja framangreindri stefnu.


Markmið og árangur

Sett eru mælanleg markmið fyrir flesta þætti í rekstri og niðurstöður kynntar mánaðarlega. Öll skorkort eru aðgengileg starfsfólki á sérstöku vefsvæði, auk upplýsinga um sölu og mest seldu tegundirnar í hverjum mánuði. Á sambærilegu svæði eru einnig upplýsingar og samantektir sem ætlaðar eru stjórnendum til að auðvelda ákvarðanir og yfirsýn sem snýr að birgðastjórnun. Í árslok 2014 var unnin áætlun til næstu þriggja ára, 2015-2017. Á grundvelli þeirrar áætlunar eru unnar ársáætlanir sem byggja á heildarstefnunni og lykilmarkmiðum.

islenska anaegjuvogin

Vínbúðirnar fengu hæstu einkunn allra fyrirtækja í Íslensku ánægjuvoginni þriðja árið í röð.

Sjálfbærnistjórnun

Markmið og mælikvarðar

Í töflunni má sjá helstu markmið og mælikvarða flokkað eftir hagsmunaaðilum með tilvísun í GRI mælikvarða og Global Compact þar sem það á við.

sjalfbaernitafla

REIKNAÐU RÉTT FYRIR VEISLUNA

Nú geta viðskiptavinir áætlað hæfilegt magn af vínföngum fyrir hvers konar veislur með hjálp veislureiknivélarinnar á vinbudin.is. Vínráðgjafar eru líka til staðar í Vínbúðunum og veita góð ráð um vín og mat.

vidskiptavinir.svg

Viðskiptavinir

Við setjum viðskiptavininn í öndvegi og tökum mið af væntingum hans um þjónustu sem byggir á lipurð og fagmennsku. Við gætum hlutleysis en leggjum jafnframt áherslu á að fræða viðskiptavini án þess að hvetja til meiri neyslu.

Eitt fremsta þjónustufyrirtæki landsins

Vínbúðin hlaut hæstu einkunn allra fyrirtækja í Íslensku ánægjuvoginni þriðja árið í röð, fékk 73,8 stig af 100 mögulegum. Einkunnin lækkaði lítillega á milli ára sem var í samræmi við niðurstöður annarra fyrirtækja í könnuninni. Alls voru birtar niðurstöður 19 fyrirtækja í 6 atvinnugreinum en Samtök iðnaðarins, Stjórnvísi og Gallup standa sameiginlega að könnuninni. Ánægjuvogin er mikilvægur mælikvarði til að kanna hvort fyrirtækið nái því markmiði að vera eitt af fremstu þjónustufyrirtækjum landsins.

ÁTVR er með ánægðustu viðskiptavini á Íslandi þriðja árið í röð. Nú fengum við 73,8 stig

Árlegar þjónustukannanir mæla ánægju viðskiptavina í hverri Vínbúð fyrir sig. Viðskiptavinir gefa þjónustunni og viðmóti starfsfólks einkunn, í ár voru viðskiptavinir einnig spurðir um ánægju með vöruval og þekkingu starfsfólks. Til viðbótar er árlega gerð könnun þar sem spurt er um almenna þætti auk þjónustunnar s.s. vöruval, opnunartíma og staðsetningu Vínbúða svo eitthvað sé nefnt. Niðurstöðurnar eru rýndar og nýttar til umbóta. Í heildina eru viðskiptavinir ánægðir með þjónustuna en almennt er meiri ánægja með þjónustu minni Vínbúða, sem allar eru staðsettar á landsbyggðinni. 

Á árinu komu rúmlega 4,4 milljónir viðskiptavina í Vínbúðirnar. Flestir koma í lok vikunnar en að jafnaði koma tæplega 30 þúsund viðskiptavinir á hefðbundnum föstudegi. Á stærstu dögum ársins voru þó um og yfir 40 þúsund viðskiptavinir sem fengu þjónustu í Vínbúðunum.

Ánægja með þjónustu vínbúðanna
2013 2014 2015
Stærri Vínbúðir 4,24 4,26 4,29
Minni Vínbúðir 4,38 4,39 4,46

Mæling Gallup á ánægju.
Kvarðinn er 1-5 þar sem 1 er lægst og 5 hæst.

þúsund
viðskiptavinir

vinbudin.is – nýr vefur

Ný útgáfa af vefnum vinbudin.is var sett í loftið í byrjun júlí. Vefurinn var hannaður með það fyrir augum að vera nútímalegur, notendavænn og á hann að endurspegla það samfélagslega ábyrga þjónustufyrirtæki sem við erum í dag. Ein nýjung stendur upp úr en það er stórbætt leitarvirkni, hvort sem leitað er að uppskriftum, víni eða fræðsluefni. Nýja vöruleitin er sérstaklega þægileg í notkun og einfalt að leita að vörum eftir tegund, verði, Vínbúð, landi, hverju vínið passar með o.s.frv. Önnur nýjung er flokkun léttvína eftir bragðflokkum en núna er hægt að leita eftir bragðeiginleikum og sætu vína til að finna það sem fellur best að smekk hvers og eins. Vínin eru litakóðuð eftir bragðeiginleikum svo auðvelt er að sjá í hvaða flokk þau falla. 

Fjöldi heimsókna á vinbudin.is

vinbudin.is
þúsund heimsóknir

Í vefbúðinni geta viðskiptavinir nálgast allt vöruúrvalið á einum stað og fengið sent í næstu Vínbúð. Birgðastaða Vínbúða er aðgengileg nokkurn veginn á rauntíma og auðvelt að sjá vöruvalið í hverri Vínbúð fyrir sig. Kort af staðsetningu Vínbúða og opnunartíma eru gagnvirk. Sölutölur eru nú á myndrænu formi og hægt er að skoða mánaðarlegar uppfærslur á mismunandi vegu.

Nýi vefurinn er skalanlegur og virkar því jafnt í tölvum, símum og öðrum snjalltækjum enda eykst hlutfall þeirra sem heimsækja vefinn með síma og spjaldtölvum ár frá ári. Viðskiptavinir hafa tekið nýjum vef vel og nýta sér hann í æ ríkari mæli. Á árinu fóru heimsóknir á vefinn í fyrsta skipti yfir eina milljón.

Fræðsla

Markmiðið með útgáfu Vínblaðsins er að auka þekkingu viðskiptavina og um leið hvetja til betri vínmenningar. Vínblaðið hefur verið gefið út fjórum sinnum á ári í 13 ár en auk vöruskrár er þar margvíslegur fróðleikur um mat og vín. Þemadagar eru kærkomin viðbót til að fræða viðskiptavini. Í júní og júlí voru Lífrænir dagar annað árið í röð til að fylgja eftir stefnu um að auka úrval lífrænna og sanngjarnt framleiddra vína. Í október var áherslan á öðruvísi bjór en áhugi á þeim flokki hefur aukist mikið á undanförnum árum. Í tengslum við þemadaga hefur verið gefið út efni með uppskriftum en allar uppskriftir sem birtar hafa verið á vegum Vínbúðanna eru aðgengilegar á vinbudin.is.

Fairtrade-doppa-392x392@x2.png
Lifraent-doppa-392x392@x2.png
Bjor-doppa-392x392@x2.png

Vínbúðir ársins

Vínbúð ársins í flokki stærri Vínbúða 2016

Reykjanesbær_1852x984@2x.jpg

Reykjanesbær

Vínbúð ársins í flokki minni Vínbúða 2016

Hella_1852x984@2x.jpg

Hella

Öllum Vínbúðum eru sett mælanleg markmið, meðal annars um afköst, þjónustustig, skilríkjaeftirlit, rýrnun og gæðaeftirlit. Mánaðarlega eru niðurstöður mælinga kynntar og hafa allar Vínbúðir aðgang að niðurstöðunni bæði fyrir sína búð og fyrir aðrar Vínbúðir. Vínbúðunum er skipt í flokka þ.e. í stærri og minni eftir fjölda tegunda í vöruvali. Árlega er starfsfólk þeirra Vínbúða sem ná bestum árangri veitt viðurkenning. Að þessu sinni voru Vínbúðir ársins í Reykjanesbæ og á Hellu. Auk þess fékk Vínbúðin í Kringlunni viðurkenningu fyrir góðan árangur í skilríkjaeftirliti og Vínbúðin á Vopnafirði fyrir að ná miklum framförum í rekstri.

Ábyrgt vöruval

Norrænt samstarf á sviði samfélagslegrar ábyrgðar

Viðskiptavinir og í raun samfélagið allt gera í auknum mæli kröfur til fyrirtækja um að þau tryggi að vörur sem þau selja séu framleiddar með siðrænum hætti. Í lögum um ÁTVR (86/2011) er kveðið á um að fyrirtækið skuli leitast við að haga innkaupum í samræmi við alþjóðasáttmála.

Allt frá árinu 2009 hafa norrænu áfengiseinkasölurnar, Alko í Finnlandi, Systembolaget í Svíþjóð, Vinmonopolet í Noregi, Rúsdrekkasøla Landsins í Færeyjum og ÁTVR verið í samstarfi sem snýr að siðferðilegum grundvallarreglum í aðfangakeðjunni. Sameiginlegt markmið er að tryggja að söluvörur fyrirtækjanna séu framleiddar samkvæmt alþjóðlegum samþykktum og siðareglum. Allar einkasölurnar hafa gerst meðlimir í alþjóðasamtökunum FTA (Foreign Trade Association) og BSCI (Business Social Compliance Initiative), en auk þess er ÁTVR aðili að heimssáttmála Sameinuðu þjóðanna (UN Global Compact). Sameiginlegu norrænu siðareglurnar eru byggðar á siðareglum BSCI og hafa þær verið kynntar fyrir áfengisbirgjum í hverju landi fyrir sig. Einnig hafa helstu vínframleiðslulönd verið heimsótt þar sem framleiðendur, samtök framleiðenda, fulltrúum stjórnvalda og öðrum hagsmunaaðilum hefur verið kynnt samstarfið og siðareglurnar. Lögð er áhersla á að reglunum sé ætlað að vera grunnur til að leiðrétta hegðun ef úrbóta er þörf en ekki útiloka vörur nema önnur úrræði hafi verið fullreynd. Árlega standa ALKO, Systembolaget og Vinmonopolet fyrir fjölda úttekta á vegum BSCI eða sambærilegra úttektaraðila þar sem framleiðendur eru metnir á grundvelli siðareglanna og gerð áætlun til úrbóta ef ástæða er til, niðurstöðurnar eru birtar í gagnagrunni BSCI fyrir meðlimi samtakanna.

Vöruval

Í desember tók gildi ný reglugerð um vöruval og sölu áfengis og skilmála í viðskiptum við birgja (nr. 1106/2015). Markmiðið með breytingunni er fyrst og fremst að gera reglugerðina aðgengilegri og auðskiljanlegri. Framsetning var einfölduð og kaflar og ákvæði stokkuð upp til að gera samhengið rökréttara en í eldri reglugerð. Fleiri reglur verða nú birtar á opnu vefsvæði á vinbudin.is en áður, til að auðvelda áhugasömum að nálgast upplýsingar.

Vöruval Vínbúðanna ræðst að mestu af eftirspurn viðskiptavina. Kjarni er meginsöluflokkurinn og myndar grunn að vöruvali hverrar Vínbúðar. Vöruval í kjarna er endurmetið þrisvar sinnum á ári. Reynsluflokkur er ætlaður nýjum vörum. Ef reynsluvara nær tilteknum viðmiðum í sölu færist hún í kjarna og er um leið fáanleg í fleiri Vínbúðum. Nú eru fjórar Vínbúðir sem selja reynsluflokk, Heiðrún, Álfrún í Hafnarfirði, Vínbúðin í Kringlunni og Vínbúðin í Skútuvogi.

tegundir í vöruvali
31. desember
Á árinu 2015 voru
nýjar vörur teknar inn í reynslusölu
viðskiptavina ánægðir
með vöruvalið

Sérflokki er ætlað að mæta óskum viðskiptavina og styðja við stefnu fyrirtækisins um að bjóða vöruval sem byggir á fjölbreytni og gæðum og um leið tryggja skilgreint lágmarks vöruval í hverjum vínbúðarflokki. Til að mæta staðbundinni eftirspurn viðskiptavina er til viðbótar skilgreindu vöruvali möguleiki að velja allt að 20 tegundir aukalega. Þær vörur er hægt að velja úr öllu vörusafninu óháð söluflokki.

Í könnun sem gerð var á seinni hluta ársins voru viðskiptavinir spurðir um ánægju með vöruval í Vínbúðinni þar sem þeir versla. Niðurstaðan var að rúmlega 69% viðskiptavina eru mjög eða frekar ánægðir með vöruvalið á meðan um 11% eru frekar eða mjög óánægðir, aðrir eru hlutlausir. Niðurstöðurnar verða rýndar með það fyrir augum að koma enn betur til móts við þarfir viðskiptavina en um leið að taka mið af stærð og staðsetningu Vínbúðanna.

Mesti fjöldi viðskiptavina

flokkað eftir dögum ásamt samanburði við hefðbundinn föstudag

Markaðshlutdeild vínbúðaflokka í heildarsölunni


Vínbúðum er skipt í sex flokka eftir fjölda tegunda í vöruvali. K1 vísar til þess að í viðkomandi Vínbúðum eru aldrei færri en 100 tegundir í kjarnasölu, sem samanstendur af mest seldu vörunum í hverjum flokki áfengis t.d. rauðvín, hvítvín o.s.frv.  Í K2 eru aldrei færri en 200 tegundir í kjarnasölu o.s.frv. Flokkur K9 er sambærilegur við K8, en til viðbótar eru í honum allar vörur sem eru í reynslusölu.

Fjöldi Vínbúða í hverjum flokki: K9-4, K8-3, K6-9, K3-7, K2-14, K1-13

milljónir króna
runnu í Pokasjóð
kaupa plastpoka
þúsund bréfpokar
gefnir viðskiptavinum
á mánuði

Gæðaeftirlit vöru

Þegar sótt er um að vara fari í sölu er gengið úr skugga um að hún uppfylli öll formskilyrði laga og reglna þar með talið reglur um merkingu matvæla. Ef ekki er gerð athugasemd fer varan í skynmat til að tryggja öryggi hennar og gæði. Á árinu lauk vottun skynmatsferlisins í samstarfi við BSI á Íslandi ehf. Vottunin felst í því að staðfesta að ÁTVR uppfylli bestu aðferðir við skynmat og að unnið sé markvisst að úrbótum á frábrigðum sem upp kunna að koma. Auk þess felst í vottun skuldbinding af hálfu ÁTVR um að tryggja að til staðar séu stöðugar umbætur á skynmatsferlinu.   

2014 2015 % breyting
Seldir lítrar 19.216.406 19.602.936 2,0%
Fjöldi viðskiptavina 4.383.097 4.427.176 1,0%
Seldir plastpokar 1.761.781 1.638.722 -7,0%
Bréfpokar gefnir viðskiptavinum 1.632.000 1.725.000 5,7%
Fjölnota burðarpokar 31.457 35.360 12,4%
Seldir maíspokar 1.890 110.158
Seldir bréfpokar 1.996
Hlutfall viðskiptavina sem kaupa plastpoka 40,2% 37,0%
fjolnota_poki

VÍNFLOKKAR AUÐVELDA VALIÐ

Vínráðgjafar Vínbúðanna hafa auðveldað viðskiptavinum leit á vinbudin.is með þægilegum vínflokkum og matartáknum. Nú er einfaldlega hægt að merkja við bragðeinkenni og sætleika eftir smekk eða hvaða matur á að vera á boðstólum og leitin finnur rétta vínið.

mannaudur.svg

Mannauður

Áhersla er lögð á að vinnustaðurinn sé öruggur, heilsueflandi og skemmtilegur þar sem samskipti einkennast af gildunum, lipurð, þekking og ábyrgð. Mikilvægt er að starfsfólk njóti virðingar og því gert kleift að sinna starfi sínu á sem bestan hátt.

Lipurd388x388@2x.png
Thekking388x388@2x.png
Abyrgd388x388@2x.png

Í gildi eru siðareglur en tilgangur þeirra er að bæta starfsanda og ímynd fyrirtækisins. Reglurnar skerpa einnig á ábyrgð starfsfólks varðandi meðferð upplýsinga og undirstrika mikilvægi þess að láta alla sem hagsmuna hafa að gæta njóta sanngirni og jafnræðis í hvívetna.

Starfsánægja

Árlega er gerð viðamikil vinnustaðagreining til að fá fram skoðanir og upplifun starfsfólks á fjölmörgum þáttum sem snúa að starfsánægju. Niðurstöðurnar eru nýttar markvisst til umbóta. Helgun starfsfólks er einn mikilvægasti mælikvarðinn en helgun er mæld með þrettán spurningum. Spurningarnar byggja á áralöngum rannsóknum Gallup og snúa að upplifun starfsfólks á vinnustaðnum m.a. hvort það fái stuðning og hvatningu, sé gert kleift að ná árangri, það metið að verðleikum og fái hrós og endurgjöf. Heildarmeðaltal helgunar fór úr 4,14 í 4,27 á milli ára og er það hæsta einkunn sem Vínbúðirnar hafa fengið á þeim átta árum sem könnunin hefur verið framkvæmd með sambærilegum hætti. 

Mikil áhersla er lögð á starfsánægju og hefur hún aldrei mælst meiri en á árinu 2015.

Allar stærri starfsstöðvar fá kynningu á niðurstöðum fyrir sína starfsstöð og samanburð við aðrar starfsstöðvar og fyrirtækið í heild, auk samanburðar við gagnabanka Gallup. Samhliða er framkvæmt yfirmannamat og fá allir sem hafa fimm eða fleiri undirmenn mat og sérstaka kynningu. Til viðbótar gefst starfsfólki kostur á að meta gæði innri þjónustu megin- og stoðsviða.

ÁTVR er þátttakandi í könnun SFR um Stofnun ársins. Niðurstöðurnar 2015 voru mjög ánægjulegar og hækkaði fyrirtækið í öllum þáttum sem mældir eru. ÁTVR var í 6. sæti af 79 stofnunum sem hafa fleiri en 50 starfsmenn. 

Vinnustaðagreining framkvæmd af Gallup: Helgun starfsfólks (starfsánægja)

KVARÐINN 1-5

Í könnun SFR um stofnun ársins náði ÁTVR 6. sæti af 79 stofnunum sem hafa fleiri en 50 starfsmenn.

Heilsueflandi vinnustaður

hjolÍ samræmi við stefnu ÁTVR er starfsfólk hvatt með margvíslegum hætti til heilsueflingar. Boðið er upp á líkamsræktarstyrki og samgöngusamninga fyrir þá sem ferðast til og frá vinnu með vistvænum hætti, að jafnaði þrisvar sinnum í viku eða oftar. Mikil ánægja er með samgöngusamningana og telja 70% starfsfólks að þeir hafi haft góð áhrif á heilsu og líðan. Samningstímabilin eru tvö, sumar og vetur. Heldur færri starfsmenn nýta sér vetrarsamning, eða 99, en 152 voru með samning yfir sumartímann. 

Árlega er framkvæmd samgöngukönnun á meðal starfsfólks. Af þeim sem tóku þátt nota einungis 32% einkabílinn til og frá vinnu yfir sumartímann. 

Þátttaka í Lífshlaupinu og Hjólað í vinnuna er skemmtileg keppni sem hvetur fólk til hreyfingar. Febrúar var skilgreindur sem heilsumánuður eins og undanfarin ár og boðið upp á fyrirlestra og fróðleik um heilbrigðan lífsstíl. Einnig er starfsfólki boðið upp á heilsufarsmælingu en þar eru mældir þættir eins og blóðsykur, blóðþrýstingur, fituprósenta og BMI-stuðull. Alls tóku 165 starfsmenn þátt í mælingunni á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni auk Akureyrar. Á minni starfsstöðvum er starfsfólki boðið upp á að leita til næstu heilsugæslustöðvar til að fá sambærilega mælingu. Niðurstöðurnar má sjá hér.


jafnlaunamerki nytt.pngJafnlaunaúttekt

Í samræmi við stefnu fyrirtækisins um að greiða konum og körlum jöfn laun var gerð jafnlaunaúttekt í samstarfi við PwC. Þetta er í annað sinn sem úttektin er gerð en ÁTVR hlaut gullmerki PwC árið 2013. 

Upplýsingagjöf

Til að starfsfólk geti sinnt starfi sínu og veitt góða þjónustu er mikilvægt að það fái nægar upplýsingar. Reglulegir starfsmannafundir eru haldnir m.a. á öllum stærri starfsstöðvum, auk þess eru birtar upplýsingar, fréttir og fróðleikur á innri vef, Ásgarði. Fréttabréf starfsfólks, Flöskuskeytið, var gefið út 6 sinnum á árinu. Blaðið er sent heim til starfsfólks en það er m.a. gert til að gefa fjölskyldunni innsýn í starfsemina. Í blaðinu er birt fjölbreytt efni, bæði fréttir og fróðleikur en myndir úr félagslífinu eru líklega vinsælasta efnið.

Slysaskráning og fjarvistir vegna veikinda

6 vinnuslys voru skráð á árinu sem er fækkun frá fyrra ári. Á innri vef var settur teljari sem segir frá slysalausum dögum. Markmiðið er að vekja árvekni starfsfólks og hvetja það til að koma með ábendingar um hættur. Langtímamarkmiðið er að sjálfsögðu slysalaus vinnustaður.

Einn mælikvarði á heilsufar starfsfólks er veikindahlutfall. Veikindahlutfall hefur lækkað verulega á undanförnum árum, var 3,8% árið 2009 en 2,3% á þessu ári.

fastradid starfsfolk transparent
Fastráðið
starfsfólk 214

í desember 2015

storfudu transparent
442 störfuðu

hjá ÁTVR í desember 2015

Starfsmannafjöldi og ársverk

Í desember störfuðu alls 442 hjá fyrirtækinu, bæði fastráðnir og tímavinnufólk, þar af voru 262 konur og 180 karlar. Tímavinnufólk er starfsfólk sem vinnur á álagstímum, seinni hluta vikunnar, í sumarafleysingum og um jól. Af þeim sem voru í vinnu í desember voru 28% í fullu starfi, 12% í hlutastarfi og 60% í tímavinnu.

Starfsmannavelta fyrirtækisins í heild var 30%. Mesta starfsmannaveltan er hjá starfsfólki í tímavinnu, eða 40%, en minnst hjá starfsfólki í fullu starfi, 16%. Í viðauka í lið GA-LA1 má sjá sundurliðun starfsmannaveltu eftir ráðningarformi, aldri og kyni.

Heildarfjöldi starfsmanna sem fengu greidd laun á árinu var 717. Umreiknað í ársverk voru þau 287 í samanburði við 282 árið áður. Í heildina hefur ársverkum því fjölgað um 1,7% á milli ára.

fengu greidd laun
árið 2015
ársverk voru unnin
árið 2015

Námskeið og starfsþróun

Að veita framúrskarandi þjónustu krefst þekkingar. Mikil áhersla er lögð á að starfsfólk hugi að þekkingu sinni og er mestöll fræðsla innan vébanda Vínskóla Vínbúðanna. Á árinu voru útskrifaðir fjórir vínráðgjafar. Alls starfa 17 vínráðgjafar á mismunandi starfsstöðvum sem allir hafa lokið alþjóðlegu prófi (WSET). Í þjónustukönnun voru viðskiptavinir spurðir um afstöðu til þekkingar starfsfólks og var niðurstaðan mjög ánægjuleg. Tæplega 77% telja starfsfólk Vínbúðanna búa yfir mjög og frekar mikilli þekkingu en eingöngu 2,7% telja þekkinguna mjög eða frekar litla.

Samanlagt voru námskeiðsstundir rúmlega 5.600 sem er samsvarandi rúmum tveimur og hálfum degi í námskeiðahald á hvert stöðugildi.

ÁTVR ER ÁBYRGT FYRIRTÆKI

Við leitum stöðugt nýrra leiða til að bæta reksturinn auk þess sem við förum vel með verðmæti og notum auðlindir af ábyrgð. Liður í því er að bjóða viðskiptavinum upp á gott úrval af fjölnota pokum sem má nota aftur og aftur í stað einnota plastpoka.

samfelagid.svg

Samfélagsleg ábyrgð

Við viljum að sátt ríki í samfélaginu um núverandi fyrirkomulag á smásölu áfengis og því leitum við stöðugt nýrra leiða til að bæta reksturinn auk þess sem við förum vel með verðmæti og notum auðlindir af ábyrgð.

innleiding-mobile

Fyrirkomulag einkasölu áfengis á Íslandi

Í þjóðfélaginu hefur mikið verið rætt um fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi. Lagt var fyrir Alþingi frumvarp nánast samhljóða frumvarpi frá fyrra ári þar sem gert er ráð fyrir að leggja ÁTVR niður í núverandi mynd og leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum. Í könnun sem Gallup framkvæmdi voru landsmenn spurðir um ánægju um fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi. Niðurstaðan er að vaxandi fylgi er við núverandi fyrirkomulag og eru 59% ánægðir, 25% hlutlausir og 16% óánægðir. Umræðu um frumvarpið var ólokið í árslok.

Vaxandi fylgi er við núverandi fyrirkomulag og eru 59% ánægðir, 25% hlutlausir og 16% óánægðir.

Skilríkjaeftirlit (hulduheimsóknir)

Ein meginskylda fyrirtækisins er að tryggja að viðskiptavinir hafi náð 20 ára aldri. Á undanförnum árum hefur mikil áhersla verið á skilríkjaeftirlit. Til að efla þjálfun og fræðslu eru framkvæmdar hulduheimsóknir af utanaðkomandi aðilum í öllum stærri Vínbúðum þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, Selfossi, í Reykjanesbæ og á Akureyri. Að meðaltali eru þrjár heimsóknir mánaðarlega í hverja Vínbúð þar sem kannað er hvort ungt fólk á aldrinum 20-25 ára er spurt um skilríki þegar það verslar.

Hulduheimsóknir


Herferðir

Á undanförnum árum hafa verið birtar ýmsar auglýsingar til að leggja áherslu á samfélagslega ábyrgð þar með talið skilríkjaeftirlit. Auglýsingarnar eru flestar í léttum dúr, þótt undirtónninn sé alvarlegur.

Um árabil hefur ÁTVR styrkt og starfað með aðilum sem sinna ýmsum mannúðar- og forvarnarmálum. Megináherslan er þó lögð á að styrkja þá sem starfa að forvörnum á sviði vímuefna.

Umhverfismál

Við berum virðingu fyrir umhverfinu og leitum leiða til að lágmarka umhverfisáhrif.

Yfirlýsing í loftslagsmálum

ÁTVR var eitt þeirra 104 fyrirtækja sem skrifuðu undir yfirlýsingu um loftslagsmál í Höfða í nóvember. Verkefnið tengdist 21. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í París í desember. Með undirrituninni skuldbindur fyrirtækið sig til að setja sér markmið og fylgja þeim eftir með aðgerðum sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs.

ÁTVR hefur um árabil sett sér markmið og unnið markvisst að minnkun á blönduðum úrgangi. Í samstarfi við Kolvið hefur fyrirtækið kolefnisjafnað alla beina losun sem fellur til vegna vöruflutninga og bílferða starfsmanna. Bein losun er 102 tonn og einnig hefur allt flug, innanlands og erlendis verið kolefnisjafnað en það fellur undir óbeina losun. Alls eru kolefnisjöfnuð 127 tonn og myndast því jákvætt kolefnisfótspor.

Samgönguviðurkenning Reykjavíkurborgar og Hjólaskálin

ÁTVR hlaut á árinu samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar. Í mati dómnefndar fyrir samgönguviðurkenningu segir m.a. „... að ÁTVR hafi sýnt góðan árangur við að breyta ferðavenjum starfsmanna í átt að vistvænni samgöngumátum. Á vinnustaðnum sé starfsfólk hvatt til heilsueflingar með líkamsræktarstyrkjum og samgöngusamningum. Ferðamáti starfsmanna er mældur bæði á sumrin og veturna.“

hjolaskalin_1836x800@2x.jpg

Á árinu var Vínbúðinni veitt Samgönguviðurkenning Reykjavíkurborgar og Hjólaskálin frá Hjólafærni og Landssamtökum hjólreiðamanna fyrir að stuðla að grænum samgöngumáta starfsfólks

Hjólafærni á Íslandi og Landssamtök hjólreiðamanna veittu ÁTVR Hjólaskálina. Hjólaskálin er veitt þeim sem hlúð hafa vel að hjólreiðum og verið öðrum hvatning og fyrirmynd. ÁTVR hefur hvatt starfsfólk til að tileikna sér hjólreiðar sem almennan ferðamáta og hugað er að því að skapa sem besta aðstöðu til hjólreiða þar sem því verður við komið.

ÁTVR tók virkan þátt í verkefninu Hjólabætum Ísland, en eitt af verkefnum þess er að innleiða „Hjólavæna vottun vinnustaða“ en markmiðið er að ná hæsta skori þegar verkefnið verður innleitt.

Fyrirtækið er stolt af þessum viðurkenningum og mun áfram hvetja starfsfólk til að ferðast með vistvænum hætti.

Kuðungurinn

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið veitti ÁTVR Kuðunginn fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á árinu 2015. Í rökstuðningi dómnefndar segir að fyrirtækið sé til fyrirmyndar í umhverfisstarfi sínu. „Það státar af öflugu og metnaðarfullu umhverfisstarfi sem ber mælanlegan árangur, auk þess sem samfélagsleg ábyrgð er fyrirtækinu leiðarljós í starfi.“

Græn skref

graen skref

Græn skref í ríkisrekstri er leið fyrir opinbera aðila til að vinna markvisst að umhverfismálum eftir skýrum gátlistum og fá viðurkenningu frá Umhverfisstofnun eftir hvert skref. Skrifstofan og dreifingarmiðstöð eru fyrstu starfsstöðvar ÁTVR til að ná þessu markmiði og innleiddu öll fimm skrefin í einum áfanga. Þar með var ÁTVR fyrsta ríkisstofnunin fyrir utan Umhverfisstofnun til að innleiða öll fimm skrefin. Vínbúðirnar 50 munu vinna að innleiðingu Grænna skrefa en nú þegar hafa Vínbúðirnar á Akranesi, í Hveragerði og Stykkishólmi ásamt Vínbúðinni Heiðrúnu fengið viðurkenningu fyrir innleiðingu á fyrstu tveimur skrefunum.

Endurvinnsla

Í samræmi við stefnu var unnið að fjölmörgum verkefnum sem tengjast umhverfismálum, áfram var unnið að þróun og innleiðingu á grænu skorkorti auk verkefna sem snúa að vistvænum innkaupum og grænu bókhaldi.

Markmið ársins um 90% endurvinnsluhlutfall náðist með samstilltu átaki. Pappi og plast eru fyrirferðarmiklir flokkar og stöðugt er unnið að því að minnka magn af óflokkuðum úrgangi. Aukning á óflokkuðum úrgangi má skýra með umfangi framkvæmda við breytingar á Vínbúðum. Þar sem því verður við komið er viðskiptavinum gert kleift að nálgast pappakassa til að endurnýta.

Fjölnota pokar
aukning
skil á gleri
skil á plasti

Plastpokar – fjölnota pokar

Það er markmið ÁTVR að hvetja viðskiptavini til að draga úr notkun plastpoka með því að bjóða fjölbreytt úrval af fjölnota pokum á hagstæðu verði. Viðskiptavinir hafa tekið pokunum vel, en á árinu voru seldir rúmlega 35 þúsund pokar sem er 12% aukning á milli ára. Auk hefðbundinna plastpoka býðst viðskiptavinum að kaupa maíspoka og bréfpoka. Enn kjósa þó 37% viðskiptavina að kaupa plastpoka þegar þeir versla sem þýðir að rúmlega 1,6 milljónir plastpoka eru seldir. Þróunin er hins vegar ánægjuleg því sala plastpoka dróst saman um 7% á milli ára en á sama tíma fjölgaði viðskiptavinum um 1%.

Bein losun
CO2-ígildi (GHL)
tonn
Endurvinnslu-
hlutfall
Kolefnisjöfnun
tonn

Í HVAÐA VÍNBÚÐ?

Vöruleitin verður sífellt fullkomnari á vinbudin.is því nú er hægt að að sjá í hvaða Vínbúðum varan fæst og auðvelda sér þannig innkaupin. Og ef það sem þú ert að leita að er ekki til í næstu Vínbúð þá er hægt að panta á vefnum og láta senda í búðina.

eigandinn.svg

Eigandinn

Starfsemi ÁTVR miðast við að hún sé sem hagkvæmust og afli tekna sem nægi til að greiða rekstrarkostnað og skila hæfilegum arði til ríkissjóðs.

Rekstur

Stór hluti tekna er með einum eða öðrum hætti hluti af tekjum ríkissjóðs þ.e. í formi áfengis- og tóbaksgjalda, virðisaukaskatts og arðs. Í ár nam þessi upphæð um 23.566 milljónum króna, en var 23.653 milljónir kr. árið 2014. Alls nam arður ÁTVR til ríkissjóðs 1.500 m.kr. 

Engar breytingar voru gerðar á áfengis- og tóbaksgjaldi á árinu.

milljónir kr. með vsk.
Hagnaður
milljónir króna
milljónir króna

Hagnaður og sölutölur

Hagnaður ÁTVR var 1.221 m.kr. í samanburði við 1.288 m.kr. árið 2014. Rekstrartekjur ársins voru 29.395 m.kr. Rekstrargjöld námu 28.163 m.kr. Þar af var vörunotkun 25.027 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 1.410 m.kr. eða 4,8% miðað við 5,2% á fyrra ári. Arðsemi eiginfjár á árinu var 27,2%.

HLUTUR RÍKISSJÓÐS AF BRÚTTÓSÖLU ÁTVR

*Áfengisgjald reiknað út eftir seldu magni

Sala áfengis

Tekjur af sölu áfengis voru 19.773 m.kr. og hækkuðu um 3,7% á milli ára. Alls voru seldar 19,6 milljónir lítra af áfengi sem er 2% meira magn en árið áður.  

Sala ársins var 2% meiri í lítrum í samanburði við fyrra ár. Sala á sterku áfengi (>22% alk.) jókst um 3,9% en sala á léttvíni (<=22% alk.) jókst um 1,4% og á bjór um 2,1%. 

Sala tóbaks

Tekjur af sölu tóbaks jukust um 0,1% á milli áranna 2014 og 2015 og voru 9.530 m.kr.

Sala á vindlingum (sígarettum) dróst saman í magni á milli ára um 1,9%, sama má segja um sölu á vindlum en þar var samdrátturinn 4,6%. Hins vegar jókst sala á neftóbaki um 9,9% og það sama má segja um reyktóbak, þar jókst salan um 1,4% á milli ára. 

Neftóbak
aukning
Sala vindlinga
samdráttur

Breyting á sölu áfengis eftir flokkum
2014-2015


Breyting á sölu tóbaks 2014-2015
 


Framkvæmdir

Ný og glæsileg Vínbúð var opnuð í Spönginni í nóvember en þar hefur ekki verið starfrækt Vínbúð frá ársbyrjun 2009. Í árslok 2015 rak ÁTVR 50 Vínbúðir auk vefbúðar, þar af eru 13 á höfuðborgarsvæðinu. 

Vínbúðin í Vestmannaeyjum flutti í ársbyrjun í nýtt húsnæði. Vínbúðin á Blönduósi flutti einnig og var opnuð á nýjum stað í lok febrúar. Vínbúðin á Húsavík var endurnýjuð í sama húsnæði. Vínbúðin á Hólmavík var flutt um set í sama húsnæði og var breytt í sjálfsafgreiðslu, en þar hafði áður verið afgreitt yfir borðið. Hún var síðasta búðin með því fyrirkomulagi og nú eru því allar Vínbúðir orðnar „sjálfsafgreiðslubúðir“. Í nóvember flutti Vínbúðin í Neskaupstað í nýtt húsnæði og þar með lauk síðasta þjónustusamningi um rekstur Vínbúða en slíkt fyrirkomulag hefur verið viðhaft í langan tíma. Vínbúðin í Borgarnesi var stækkuð og endurnýjuð frá grunni. Unnið var að endurbótum á lóð Vínbúðarinnar á Akureyri, skipt um jarðveg, lýsing endurbætt og bílastæði malbikuð. Á Siglufirði var ný klæðning sett á húsnæði Vínbúðarinnar. 

Á árinu var innleitt vottað byggingastjórakerfi en samkvæmt lögum um mannvirki er gerð krafa um slíkt gæðastjórnunarkerfi fyrir byggingastjóra, iðnmeistara og hönnuði.

Dreifing

ÁTVR dreifir vörum með eigin bifreiðum á höfuðborgarsvæðinu, til Akraness, Borgarness, Reykjanesbæjar og Grindavíkur. Aðrir flutningar er boðnir út. Með markvissri vörustjórnun er leitað leiða til að koma vörum til Vínbúða með sem skilvirkustum hætti um leið og hugað er að því að lágmarka umhverfisáhrif flutninganna. 

Ný Vínbúð opnaði í Spönginni á árinu

Vínbúðir um
allt land
Vínbúðir á
höfuðborgarsvæðinu

ALLT VÖRUÚRVALIÐ Á VINBUDIN.IS

Á vinbudin.is hafa viðskiptavinir aðgang að öllu vöruúrvali Vínbúðanna. Með öflugri og ýtarlegri leit er hægt að leita eftir landi, verði, tegund og fjölda flokka sem hjálpa þér að finna vínið sem hentar hverju sinni.

birgjar.svg

Birgjar

Árlega eru gerðar tvær viðhorfskannanir meðal birgja til að fá fram skoðanir þeirra á ýmsum þáttum, til dæmis þjónustu, framkvæmd vöruvalsreglna og upplýsingagjöf. Ánægja birgja með ÁTVR á heildina litið hefur aukist á milli ára.

Stefna og framkvæmd ÁTVR gagnvart birgjum

Allir þeir sem hafa leyfi til innflutnings áfengis geta sótt um að vörur þeirra fari í reynslusölu í Vínbúðir. Áður en viðskipti geta hafist er skilyrði að birgir hafi undirritað stofnsamning um vörukaup áfengis. Samningurinn er heildarsamningur og tekur til allra vörukaupa ÁTVR frá birgi. Samningnum er ætlað að einfalda skjalagerð og samskipti aðila með upptöku rafrænna viðskipta, jafnframt því sem hann kveður heildstætt á um réttarstöðu aðila á grundvelli reglugerðar um vöruval og sölu áfengis og skilmála í viðskiptum við birgja (nr. 1106/2015).  

Viðhorf birgja og upplýsingagjöf

Birgjar hafa aðgang að sérstöku vefsvæði þar sem sótt er um vörur í sölu, verðbreytingar tilkynntar, aðgangur er að sölutölum og skýrslum auk almennra tilkynninga. Birgjar geta að jafnaði breytt verði á vörum einu sinni í mánuði. Til að upplýsa birgja enn frekar um þætti í rekstri og vöruvali eru haldnir upplýsingafundir sem eru jafnan vel sóttir. Eitt af sameiginlegum hagsmunamálum ÁTVR og birgja er að minnka eins og kostur er frávik í vörumeðhöndlun. Með aukinni upplýsingagjöf og samstarfi við birgja var unnið að fækkun frávika og náðist góður árangur á síðari hluta ársins.

Sala bjórs
innlendur bjór
birgja ánægðir með ÁTVR

Til að fá fram skoðanir birgja á ýmsum þáttum s.s. þjónustu, framkvæmd vöruvalsreglna og upplýsingagjöf, eru árlega gerðar tvær viðhorfskannanir. Við úrvinnslu er birgjum skipt í tvo flokka eftir veltu. Stórir birgjar eru þeir sem hafa yfir 100 m.kr. viðskipti á ársgrundvelli við ÁTVR en minni þeir sem eru með viðskipti undir þeirri upphæð. Almennt eru stærri birgjar ánægðari en þeir minni. Helstu niðurstöður eru kynntar birgjum og leitað er leiða til að svara athugasemdum og finna leiðir til úrbóta.  

Ánægja birgja með ÁTVR á heildina litið hefur aukist á milli ára og það sama má segja um hversu birgjar eru ánægðir með fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi. Á heildina litið eru birgjar ánægðir með þjónustu og upplýsingagjöf. Sjá nánar helstu niðurstöður í viðauka hér. Þær áskoranir sem ÁTVR stendur jafnan frammi fyrir í birgjasamskiptum er að tryggja hlutleysi við ákvarðanir og á það jafnt við um ákvarðanir um vöruval og framstillingu. 

Fjöldi frávika í vörumóttöku

Flest frávik eru vegna ósöluhæfrar vöru, vöntunar eða umframmagns í afhendingu og vegna strikamerkja.

Önnur innkaup

vistvaenÁTVR er þátttakandi í verkefninu Vistvæn innkaup (VINN) og skilar inn tölum um grænt bókhald. Verkefnið er samstarfsvettvangur opinberra aðila en meginþættir verkefnisins eru að þróa vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur, upplýsa og aðstoða. Markvisst er unnið að því að auka hlut vistvænna vara. Árlega eru sett markmið um grænt bókhald fyrir fjölmarga þætti og fylgst með niðurstöðunni mánaðarlega. 


Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins

Stuðlaháls 2     vinbudin@vinbudin.is     vinbudin.is